Heim / Vissir þú? / Rótarlúsin hræðilega

Rótarlúsin hræðilega

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 13. hluti, rótarlúsin hræðilega

Hinn hræðilegi rótarlúsarfaraldur skall á árið 1863. Þessa varð fyrst vart í Evrópu, á svæði sem nefnist Arles og er í héraðinu Provence í Frakklandi. Lauf vínviðarins gulnuðu upp og féllu síðan af greinunum, ný brum voru kraftlaus og berjaklasar vínviðarins þroskuðust ekki.

Þremur árum eftir að fyrstu einkenna varð vart, var plantan dauð. Lítið skordýr lagðist á rótarskot vínviðarins og tók alla  næringu sem rótin vann úr jarðveginum.

Þetta gerðist vegna tilkomu hraðskreiðra gufuskipa. Lúsin barst frá Ameríku yfir til Evrópu. Áður hafði lúsin drepist á leiðinni yfir hafið. Nú tók ferðin skemmri tíma og lúsin náði að halda lífi. Aðeins örfá smærri svæði í Evrópu sluppu við þennan faraldur.

Evrópskir víngerðarmenn glímdu við vandann. Fundin voru eiturefni sem sprautað var niður í jarðveginn til að drepa lúsina. Þau virkuðu ekki nógu vel, auk þess sem það gat skaðað vínviðinn ef efnin voru of sterk.

Í Ameríku  voru vínviðartegundir sem voru orðnar ónæmar fyrir lúsinni. Þetta bjargaði vínrækt Evrópumanna. Þeir fengu rætur frá Ameríku er myndað höfðu þol gegn lúsinni. Á þessar rætur voru græddar greinar af evrópskum vínvið.

Framleiðendur í Chile benda sífellt á, að eina landið sem framleiðir gríðarlegt magn og ekki hefur nokkurn tíman orðið fyrir árás Phylloxera lúsarinnar, sé þeirra.

Eftir að evrópsk víngerð reis að nýju hófst mikil framþróun með tilkomu tækninnar.  Háskólar kenna nú allt um  víngerð og vísindamenn vinna að rannsóknum á þessu sviði.

Þróunin hefur orðið í átt að léttari og frísklegri vínum. Markmið víngerðarmeistarans er að framleiða í dag hágæðavín sem neyta má á morgun. Umbúðir eru að breytast úr flöskum í kassa og fernur og æ fleiri framleiðendur nota nú skrúfaða málmtappa í stað korktappans.

GK-BG

(Visited 6 times, 2 visits today)