Heim / Vissir þú? / Flokkunin í Bordeaux

Flokkunin í Bordeaux

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 11. hluti, flokkunin í Bordeaux

Portúgalir voru miklir sæfarendur og í landvinningaferðum alla tíð. Síðasti viðkomustaður þeirra á Atlantshafi áður en haldið var vestur um var eyjan Madeira. Þar var framleitt vín sem á þeim tíma taldist ekki til göfugra drykkja. Þessi vín voru flutt til nýlendanna í Vesturheimi. Siglingaleiðin lá um svæði nærri miðbaug og því var ákaflega heitt á leiðinni. Vínið hitnaði allt upp í 40°C en við það batnað vínið til muna. Borgin Savannah í Georgíufylki varð fljótlega helsta miðstöð heimsviðskipta með drykkinn frá Madeira.

Næsti stórviðburður í vínsögunni varð í Frakklandi. Eftirspurn eftir góðum frönskum vínum var orðin mikil og samkeppni milli búgarða og svæða.  Þeir bestu fengu hærri verð fyrir sína framleiðslu.  Freistandi var þá að auka framleiðsluna með þeim afleiðingum að gæðunum hrakaði. Þeir bestu vildu líka staðfesta sín gæði. Ákveðið var að flokka vínin frá Bordeaux í gæðaflokka. Þessi flokkun leit dagsins ljós árið 1855.  Aðeins fjórir búgarðar náðu inn í efsta gæðaflokkinn fyrir rauðvín Bordeaux héraðs.

Nú var opinberlega skráð, að bestu rauðvín Bordeaux væru:

Château Lafite

Château Latour

Château Margaux

Château Haut-Brion

Í hvítvínum var aðeins einn búgarður sem náði inn í efsta gæðaflokkinn og besta hvítvín Bordeaux samkvæmt flokkuninni var: Chateau d´Yquem

Flokkunin varð fyrirmynd annarra slíkra gæðakerfa, sem seinna meir voru tekin upp annarsstaðar í Frakklandi, sem og öðrum löndum.

Menn hefur greint á um ágæti þessarar flokkunar allt frá upphafi, en hún tryggir viðskiptavininum ákveðin gæði. Helsti galli flokkunarinnar í dag er að í neðri gæðaflokkum eru vín sem ættu fullt erindi inn í hærri flokk. Margir framleiðendur sem lentu í neðri flokkum eru að gera betri vín í dag en þeir gerðu árið 1855.

Aðeins ein breyting hefur verið gerð á þessari ströngu flokkun frá upphafi. Árið 1973 var fjölgað í efsta gæðaflokki rauðvína um einnnn búgarð. Hann hafði áður verið talinn besti búgarður í öðrum flokki. Eftir áratuga langa baráttu var hann fluttur upp á milli flokka. Þessi búgarður var: Chateau Mouton Rothshild.

GK-BG

(Visited 13 times, 1 visits today)