Heim / Uncategorized / Uppboð aldarinnar

Uppboð aldarinnar

Ríkasta stelpa í heimi var hún kölluð af slúðurblöðum á þriðja áratug síðustu aldar, hún lifði hátt og vel, hversdagsvínið hjá henni var La-Mission-Haut Brion 1929. Hún var einkabarn James Buchanan “Buck” Duke stofnanda American Tobacco Company og Duke Power sem var sagður vera 80 milljón dollara virði þegar dóttirinn fæddist 1912. Hún erfði síðar 30 milljónir dollara eftir föður sinn sem hún margfaldaði svo um munar en hún var 750 milljón dollara virði þegar hún lést 1993.

Stúlkan hét Doris Duke og var ástríðufullur safnari og unnandi listaverka og góðra vína. Á uppboði hjá Christie´s í New York 4. júni 2004 voru boðnar upp 1900 flöskur af frábærum og nú afar sjaldgæfum vínum, sem Duke náði aldrei að drekka. Áætlað söluverðmæti 1 milljón dollara. Meðal þeirra vína sem á uppboðinu voru má nefna Dobbelt Magnum (3 lítrar) Chateau Cheval Blanc 1911 og Chateau La Tour 1918, fleiri kassar af Chateau d´Yquem og La-Mission-Haut-Brion 1929. Einnig eru í kassavís Chateau la Tour 1929 og  DRC Romanée-Conti 1934.

Heiðurinn af þessum stórkostlega kjallara Doris Duke á fyrrum eiginmaður hennar, hinn veraldarvani yfirstéttarmaður og síðar sendiherra Canada, James H.R. Cromwell, en á árunum 1937-38 keypti hann um 6000 flöskur frá vínsölumanninum R. Boyer í París. Vínkjallararnir voru tveir, annar á búgarði hjónanna að Sommerville New Jersey og hinn að Shangri – La sem var annað heimili hjónanna í Diamond Head á Hawaii. Talning sem gerð var í Sommerville 1938 sýnir ótrúlegt magn af gæðavínum eins og 38 kassar af Chateau d´Yquem 1929, 29 kassar af Chateau Climens, 27 kassar af Chateau La Mission-Haut-Brion, 18 kassar af Chateau Latour og 18 kassar af DRC Romanée-Conti 1934.

Vínkjallari Doris Duke var og er  mjög óvenjulegur að því leytinu til að í honum eru nánast einungis 1. cru Bordeaux og Grand Cru Bourgogne en engin Cru Bourgoise eða vín frá Ítalíu, Spáni eða Kaliforníu eins og tíðkast í flestum einkakjöllurum í dag. Safnið bar þess klárlega merki að gestgjafinn vildi geta borið á borð einungis það besta án þess að eiga á hættu að eiga ekki nóg.
Einn nánasti vinur Doris Duke var leikarinn Jim Nabors en hann var einnig nágranni hennar á Hawaii. Hann minnist veislanna hjá frú Duke svona; “Það voru alltaf góð vín á boðstólnum. Ekki það að ég hafi haft mikið vit á vínum en ég drakk mikið af þeim, og frúin gerði aldrei veður út af því sem hún var að bera  á borð”.

Reyndar virðast hjónin ekki hafa haft mikið vit á vínum sjálf því samkvæmt gömlum talningarlista sem Charles Bellow víninnflutningsaðili frá New York gerði fyrir þau hjónin 1938 þá er hann að koma með ýmisar ráðleggingar. Eins og að minna þau á að drekka Chateau d´Yquem kælt og að nota La Misson 1929 sem hversdagsvín vegna þess gífurlega magns sem þau áttu, en í dag fer flaskan á 750 dollara að meðaltali á uppboðum.

Vínin í kjallara Dukes á sveitabýli hennar höfðu legið óhreyfð í 65 ár og er varla hægt að hugsa sér betri aðstæður,  nema ef þau hefðu legið óhreyfð í kjallara í Frakklandi þar sem þau voru framleidd. Það er ekkert “fancy” við kjallarann, þetta er gamall kjötkælir og ólíklegt að nokkur annar en einkaþjónn þeirra hjóna hafi komið þar inn. En kælir þessi hafði líka það hlutverk að hýsa pelsa frúarinnar ásamt uppstoppuðu bengölsku tígrisdýri. Aðeins örfáar flöskur eru yngri en 1934 og samkvæmt ummælum Ian Mendelsohn frá Cristie´s í New York,  þá er ástand vínanna alveg með ólíkindum gott og hann hefur aldrei áður séð svo stórt safn af svo gömlum gæðavínum í svona góðu ástandi og í svona miklu magni.

(Visited 1 times, 1 visits today)

Svara

Netfang verður ekki birt