Heim / Uncategorized / Matur og vín eða vín og matur

Matur og vín eða vín og matur

Dökkt kryddmikið vín með bragðmiklum pottrétti á köldum vetrardegi, sætvín með jarðarberjum á heitum sumardegi, stór og mikill Bordeaux með vel skipulögðum kvöldverði í góðra vina hópi eða skyndileg ákvörðun um léttan Chianti með kvöldverðinum við eldhúsborðið.
Það eru endalausir möguleikar í ánægjunni að njóta góðra vína með mat.
Óvæntar samansetningar geta oft verið svo ánægjulegar að við þurfum ekki að ætla að einungis sé bara til eitt “rétt” vín með hverjum rétti, þó að öll betri vín eigi vissulega skilið að vandað sé valið á matnum.
Samsetningin veldur oft miklum þönkum og ekki að ástæðulausu. Hvað ber að hafa í huga, er einhver þumalputtaregla um hvað passar með hverju ?
Það eru ýmsar aðferðir við að finna passlegt vín með matnum, en meginreglan er og verður alltaf; þú drekkur það sem þér þykir gott.

Staðreyndin er hins vegar sú að rétt val á vínum gerir máltíðina miklu fullkomnari og dregur fram það besta í bæði mat og drykk, það er ægilegt þegar vínið hverfur í kryddkeim eða maturinn sem búið er að nösla við í fleiri klukkutíma er bragðlaus vegna allt of kröftugs víns.
Þumalputtareglan er einfaldlega sú að hvorugt má yfirgnæfa hitt.

En til að velja rétt vín þarf maður að þekkja vínið eða vita hvernig vín frá ákveðnum svæðum eru, þ.e. hvernig karakter er í víninu hvernig bragð og angan er venjulega að finna frá vínum frá ákveðnum svæðum. En svo kemur að því sem er alveg jafn mikilvægt og það er maturinn. Oft er aðalhráefnið ekki það sem ræður úrslitum við val á vínum, heldur skiptir kryddið og meðlætið líka miklu máli. Ljóst kjöt er t.d. ekki sérlega bragðmikið því þarf að huga að öllu hinu. Tökum dæmi, svínakjöt kallar á léttan Bourgogne eins og Cote de Beaune Villages frá Pierre Andre hins vegar ef það er kryddað með t.d. engifer og soya borið fram með villisveppum og kröftugri demi-glace (sósa sem er soðin niður úr beinum) þá myndi valið falla á allt annað vín, t.d. Suður-Afrískan Cabernet-Merlot eins og Andrews Hope, vín sem hefur mikla fyllingu og létta sætu. Austurlenskur matur er vinsæll á heimilum landsmanna enda sést það á hillum stórmarkaðanna sem svigna undan úrvali af alls konar núðlum, kryddi og sósum frá Asíu. Með svona mat þarf bragðmikið hvítvín eins og Gewurstraminer Cote de Rouffach frá Rene Mureé. Það er nefnilega staðreynd að þó svo að maturinn sé mikið kryddaður þá ræður Gewurstraminer vel við það enda eru einkenni hans krydd og sæta en sætan vegur upp á móti kryddinu.

Alveg eins og með sýrurík hvítvín, þau passa oft með sýruríkum mat en sýran vinnur saman og dregur fram ávöxtinn í víninu.
Matargerð í dag hefur breyst gífurlega með tilkomu matargerðar sem kölluð er “fusion” en hún byggist upprunalega á að blanda saman austurlenskri matargerð með amerískri. Í dag er “fusion” meira notað um allar týpur af matargerð sem eru blandaðar með annarri eins og ítalskt og mexikanskt osfr. Þessi skemmtilegi ruglingur í matreiðsluhefðum hefur gert starf vínþjónsins miklu meira spennandi en það var. Áður fyrr var allt í föstum skoðum og frekar auðvelt að finna rétt vín, en í dag er allt leyfilegt og það gefur okkur tækifæri að setja vínin í ákveðið test. Á þennan hátt lærum við mest um vínin og eins og fram kemur í byrjun þessa pistils þá eru það oft óvæntu samansetningarnar sem veita okkur mestu ánægjuna.

Að lokum getum við þó alltaf huggað okkur við það, að það er til vín fyrir öll tækifæri og allan mat.

(Visited 1 times, 1 visits today)