Heim / Fróðleikur / Cognac – dýrmætir dropar

Cognac – dýrmætir dropar

Afaleg týpa með vel snyrt yfirvaraskegg í góðum holdum situr í Chesterfield stólnum við arineldinn í hálfrökkrinu. Hann er í cardigan peysu og inniskóm, við hlið hans á gólfinu er veiðihundurinn hans sem fylgir honum út um allt. Afi er að reykja pípuna sína og er með cognac´sglas í hendinni sem hann sýpur af öðru hverju af mikilli innlifun og nautn.

Þetta er eða öllu heldur var hin sígilda ímynd af einu mest metna brennda víni í heimi, cognac.

En nú er öldin önnur og cognacsframleiðendur vöknuðu af værum blundi við þá staðreynd að salan hafði minnkað umtalsvert, afi horfinn yfir móðuna miklu og enginn tekinn við hans hlutverki sem hinn tryggi neytandi. Nú voru góð ráð dýr hvernig átti að bregðast við.

Samkeppnin var blandaðir drykkir “long drinks” og aukin léttvínsneysla.Því tóku cognacsframleiðendur uppá því að markaðsetja sína vöru sem slíka, blandaða með ginger ale eða tonic.

Guðlast, hrópuðu hörðustu aðdáendur og velunnarar þessa ágæta drykks, en hér er ekki öll sagan sögð, aðdáendunum til mikillar hneykslunar reyndu sumir framleiðendur meira að segja að fá okkur til að drekka cognac með mat.

Þetta fór allt saman fram með misgóðum árangri eins og gefur að skilja, þú kennir ekki gamla veiðihundinum hans afa nýjar kúnstir, sérstaklega ekki með afa víðsfjarri öllu góðu gamni.

Fyrir þá sem hafa ekki enn smakkað cognac blandað með ginger ale eða tonic hef ég bara eitt að segja – ekki bíða lengur þetta er stórgott.

Cognac með mat, hverjum skyldi hafa dottið þessi vitleysa í hug – eða er þetta svo vitlaust. Í mörg hundruð ár hefur homo sapiens drukkið brennd vín með mat. Við þurfum ekki að leita lengra en til frænda vorra Dana sem eru miklir aðdáendur Ákavítis og neyta þess jafnt með síld sem osti. Svipaðar hefðir er að finna á öllum Norðurlöndunum.

Í Japan hafa menn drukkið saké (hrísgrjónabrennivín sem reyndar er ekki nema ca. 21%) í aldaraðir, Japanir hafa hinsvegar (eftir að þeir urðu voða ríkir) drukkið cognac í staðinn og þá ekki ódýrustu týpurnar heldur XO. Cognac er ekkert annað en brenndur vökvi búinn til úr vínberjasafa og því skyldi hann ekki henta með mat eins og svo margt annað.
Tvö dæmi um frábæra samansetningu sem greinarhöfundur stendur fyllilega við og tekur alla ábyrgð á eru; Napoleon cognac og franskur Roquefort eða enskur Stilton frábær samansetning það er ekki hægt að nota Gorgonzola vegna þess hve feitur hann er. Létt steikt Foie Gras og XO cognac, ég skal alveg viðurkenna að þetta hljómar undarlega en allt á sína skýringu.

Gráðostur og Napoleon Cognac fara vel saman einfaldlega vegna þess hversu milt þetta cognac er og vegur vel upp á móti sterkjunni í ostinum. Í Þýskalandi er til ostur sem heitir “Pot Kaisë” og er gamall gráðostur hrærður upp með Weinbrand sem er ekkert annað en þeirra svar við Cognac. Vegna þess hve feit franska gæsalifrin er þarf hún mótspil og  venjulegast  veljum við sæt vín frá Alsace þá helst úr Pinot Gris eða Gewurstraminer þrúgunum. En það er hægt að fara í hina áttina og velja XO cognac sem er fyrir það fyrsta með hærra alkóhólinnihaldi en er engu að síður milt með karamellu og vanillu í bæði bragði og angan.

Engu að síður Cognac á sér langa sögu og sem betur fer er sú saga síður en svo öll og enn eru guði sé lof til (og alltaf að bætast í hópinn) tryggir neytendur þessa eðaldrykks upp á gamla mátann.

Það er alltaf gaman að prófa sig áfram og finna sína uppáhalds Cognac gerð. Velur maður VSOP a.m.k. 8 ára, Napóleona a.m.k. 15 ára eða XO sem er a.m.k. 35 ára. Cognac er allt blandað mismunandi árgöngum. Þess vegna er hægt að ná sama bragðinu og stílnum ár frá ári. Cognac afsama árgangnum og úr sömu tunnunni er sjaldan sérlega gott þó   vissulega sé það til.

En þegar upp er staðið þá líður okkur vel og við sofum rólega á nóttunni vegna þess að við vitum – það er til vín við hvert tækifæri og með öllum gerðum af mat.

(Visited 17 times, 3 visits today)