Heim / Fróðleikur / Armagnac í stað cognac?

Armagnac í stað cognac?

Ekki er allt brandy cognac; Hvað er það þá ?

Brandy er einfaldlega samnefni yfir alla brennda drykki, brenndur drykkur er sá sem er eimaður. Til þess að eima alkóhólið úr vökva þá þarf að sjóða hann og  þar sem alkóhól gufar upp við 80° en vatn við 100° þá þarf að halda alkóhólgufunni inni. Í framleiðslu á Armagnac, Cognac og Whiskey  er notuð svokölluð Pot Still-aðferð sem lýsir sér svona í stuttu máli.

•Pot-still; Er elsta eimingartækið sem við þekkjum. Alkóhólvökvinn er hitaður í þéttu íláti. Þegar alkóhólið gufar upp við 80° (vatn gufar upp við 100°) fer uppgufunin í kæliílát þar sem gufan breytist í vökva. Alkahólvökvinn er 35-40 % eftir fyrstu eiminguna en ca. 70 % eftir aðra, þessi aðferð er notuð í Cognac, Skotlandi og Írlandi.
Armagnac og Cognac eru mjög áþekkir drykkir að mörgu leyti en það er líka mismunur sem er afgerandi. Oft er það þannig að þeir sem byrja að drekka Armagnac geta ekki hugsað sér annað.

Armagnac er af mörgum álitið vanmetið og hefur verið í skugga Cognac of lengi, þrátt fyrir að eiga mjög margt sameiginlegt. Sjáanlegi munurinn er líklegast sá að í cognac eru gæðastimplar eins og VSOP, XO, EXTRA o.s.frv. notaðir, en í Armagnac eru það árgangarnir á flöskunum sem segja til um hversu gamalt elsta Armagnac´ið er. Armagnac eins og cognac, er blandað hinum ýmsu árgöngum til að fá meira samræmi í drykkinn. Það var ekki fyrr en 1989 að Cognac leyfði framleiðslu á árgangscognac.
Í Armagnac-, Cognac- og Whiskey (Skotlandi og Írlandi) framleiðslu er notast við samskonar eimingaraðferð, þau eiga það líka sameiginlegt að á þessum svæðum eru framleiddir gæða líkjörar.

Armagnac er bæði elsta og yngsta brennda vínið í Frakklandi. Elst þar sem til þekkist að það hafi verið framleitt á 16. öld en yngst að því leytinu til, að enn þann dag í dag eru framleiðendur ekki sammála um hvaða eimingaraðferð er best. Þetta gerir það að verkum að það eru miklu meiri karaktereinkenni á milli Armagnac framleiðenda en Cognac framleiðenda.

Armagnac er staðsett í suð-vestur hluta Frakklands, nánar tiltekið í Gascogne héraðinu við spænsku landamærin. Svæðinu er deilt upp í þrennt; Í fjalllendinu í suðri nánast í hálfmána í kringum umdæmið er Haut-Armagnac, í norðvestri á flatlendinu er Bas-Armagnac sem er besta svæðið og á milli þeirra tengir síðasta svæðið hin tvö saman. Það heitir Ténaréze. Mikilvægustu þrúgurnar eru þær sömu og í Cognac, Ugni Blanc, Colombard og Folle Blanche.

Jarðvegurinn, sem i Armagnac er sendinn en í Cognac kalkríkur, heitara loftslag, ámur úr eik frá héraðinu og mismunandi eimingaraðferðir eru alt mikilvægir þættir sem skipta sköpum í þeim afgerandi mun sem er á þessum tveimur brenndu vínum.      Einstaka Armagnac framleiðendur eima tvisvar eins og í Cognac en flestir nota hina hefðbundnu aðferð. Hin hefðbundna eiming fer fram í Armagnac -katli, sem einnig kallast “alambic”. Þetta er sérþróuð aðferð sem er millibil á milli “pot-still” og samfelldrar eimingar, eins konar tvöfaldur ketill þar sem vínið er einungis eimað einu sinni (facon continue).  Það gefur af sér alkóhól af 50% styrkleika á móti 35-40% eftir venjulega einfalda eimingu (tvöföld eiming gefur ca. 70% alkóhól munið). Lægra áfengismagn vökvans gerir hann bragðmeiri og kröftugri sem ungan. Þessum unga vökva er svo hellt beint á eikarámur þar sem hann verkast og þroskast, tekur í sig sýru og angan frá eikinni.

Til að fá meira samræmi í vökvann er blandað saman armagnac frá ýmsum svæðum og árgöngum í ámurnar. Þar sem Armagnac má aðeins innihalda 40% alkóhól er hægt að minnka styrkleikann með því að bæta út í blöndu af Armagnac og eimuðu vatni (les petit eaux). Það sem gerir Armagnac svo sérstakt er trjátegundin sem er notuð í ámurnar, eikin vex á svæðinu og er mjög safarík og gerir það að verkum að Armagnac hefur góða fyllingu í lyktinni og mikið bragð. Eftir ca. 8 ára verkun er vökvinn vel þroskaður en heldur áfram að þróast og verða betri svo lengi sem hann er í ámum.
Armagnac er spennandi og áhugaverð tilbreyting frá cognac og hvet ég fólk endilega til að prófa.

(Visited 10 times, 2 visits today)