Heim / Uncategorized / Fréttir úr vínheiminum

Fréttir úr vínheiminum

Eru Frakkar hættir að elska vín?
Víndrykkja Frakka er á miklu undanhaldi og er ástandið svo alvarlegt að fulltrúar iðnaðarins hafa fundað með forsætisráðherra landsins um ástandið.
Á sama tíma hafa hagsmunasamtökin  “Vin et Société” hafið háværar auglýsinga- herferðir í stóru frönsku blöðunum Le Figaro og Le Monde sem hljóma svona: “ Er nei eina framtíðin fyrir vín í Frakklandi”.

Neysla Frakka hefur hrapað úr 126 lítrum á mann í kringum 1960 í 56 lítra árið 2000. Fasteignaverð á frönskum vínbúgörðum hefur hrapað um þriðjung og áætlað er að um 1000 litlir vínframleiðendur séu á barmi gjaldþrots. 1991 voru samþykkt lög sem bönnuðu áfengisauglýsingar í Frakklandi  og er þessum lögum nú harðlega mótmælt þar sem víndrykkja hefur ávallt verið talinn hluti af arfleifð og samfélagi Frakka.

Einnig bendir Vin et Société réttilega á að víndrykkja er ekki eins hættuleg og haldið var fram þegar þessi lög voru gerð. Ótal læknisfræðilegar rannsóknir sanna að hóflega drukkið vín sé heilsusamlegt, og þar fyrir utan verði að gera greinarmun á léttum vínum og öðrum áfengum drykkjum með tilliti til laga þessa. Þetta er spurning um menningu og vín sé nauðsynlegur hluti matreiðsluheimsins sem vissulega á sér mikla og langa hefð í Frakklandi. Þrátt fyrir þessar heitu umræður þá er, samkvæmt skýrslu sem gerð var af nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, framtíðarstefnan að lækka áfengisneyslu um 20% í viðbót á næstu 5 árum, en skýrsla þessi komst fyrir misgáning í hendur blaðamanns frá Libération.

Ensk vín lent í París.
Einn virtasti vínsnillingur í Frakklandi framreiðir enskt freyðivín á veitingastaðnum sínum í París – en hann verður að framreiða það blint.
Philippe Faure-Brac var kosinn besti Sommelier (Vínþjónn) í heimi árið 1992 og er í dag virtur fyrir skrif sín, fyrirlestra og sem veitingamaður en hann á og rekur veitingastaðinn Bistrot du Sommelier í París.
Ég segi fólki ekki að það sé að drekka enskt freyðivín enda myndi það fyrirfram ákveða að það væri ekki nógu gott. Þess vegna læt ég það smakka það blint og finnst fólki það frumlegt og spennandi. Svo læt ég fólk vita að hér sé á ferðinni enskt freyðivín frá Tenterden Vineyards,  er haft eftir Philippe sem jafnframt segir fólk verða hissa við fréttirnar. Philippe er ekki einn um þennan áhuga því tímaritið L´Express mælti með þessum vínum á dögunum og meira að segja Yves Bénard forseti Samtaka Franskra kampavínsframleiðanda sagði að ensku freyðivínin héldu þeim við efnið í Frakklandi.

Önnur áhugaverð staðreynd er að það voru Bretar sem fundu upp kampavínið, staðhæfing sem enginn Frakki myndi nokkurn tíma taka undir. En allar staðreyndir, rit og skrár sanna engu að síður að svo sé. Fyrsta franska ritið um kampavín er frá árinu 1718 og segir frá uppákomu 20 árum áður eða í kringum 1695-1698 en kampavín var ekki einungis orðið þekkt 20 árum fyrir þann tíma eða í kring um 1675 í Bretlandi heldur orðið mjög vinsælt. Fyrsta ljóðið ritað um kampavín er eftir bretann Sir Georg Etherege og er frá árinu 1676 og heitir “The man of mode”. Ástæðan fyrir því að Bretar urðu fyrri til er einfaldlega sú að þeir réðu yfir tækninni til að búa til freyðandi vín og þar fyrir utan þá þurfa flöskurnar að vera úr mjög sterku gleri og það höfðu Bretarnir en Frakkarnir ekki. Það er þó ekki svo að vínframleiðsla hafi verið á Bretlandseyjum á þessum tíma heldur fluttu þeir einfaldlega inn hvítvín frá Frakklandi og gæddu það svo lífi.

Margoft hefur því verið haldið fram að munkur nokkur að nafni Dom Perignon hafi fundið upp kampavínið en það er einfaldlega ekki rétt og meira að segja draga sagnfræðingar það í efa að hann hafi nokkru sinni ætlað sér að búa til kampavín heldur hafi það gerst fyrir mistök. Það er einnig áhugavert að jafnmikill fræðimaður og  Dom Perignon á að hafa verið skyldi ekki skilja eftir sig nein rit eða glósur um kampavínsframleiðsluna en hann var víst ekki spar á hrósyrðin um sjálfan sig á öðrum vettvangi. Bretar bjuggu sem sagt til kampavín 30 árum á undan Frökkum og einum 70 árum áður en fyrsta kampavínshúsið er stofnað í Frakklandi.

(Visited 1 times, 2 visits today)

Svara

Netfang verður ekki birt