Heim / Uncategorized / Champagne – freyðandi gull í fljótandi formi

Champagne – freyðandi gull í fljótandi formi

Klassísk kynning á herramanni sem allir þekkja og er þekktur fyrir að vilja aðeins það besta. Þess vegna hefur kampavín alltaf verið á óskalistanum hjá honum og í flestum tilfellum Bollinger 61, árgangur sem auðvitað ekki allir geta keypt, nema Bill Gates eða einhverjir á svipuðum launum. Flestir tengja kampavín við sérstök tækifæri og á verðið væntanlega sinn þátt í því. Gott kampavín er engu að síður hægt að fá í vínbúðum á tæpar 3000,- krónur, sem er ekkert rosalegt.  Því ekki að slá til og hafa kampavínskvöldverð heima. Það kemur flestum á óvart hvað kampavín passar vel með margvíslegum mat og oft er hægt að njóta kampavíns alla máltíðina, jafnvel nota mismunandi týpur.  Eldri og dýrari týpurnar hafa öðlast meira bragð og eru flóknari, og ráða því  við kröftugri mat.

Ef við tökum Bollinger sem dæmi þá er hann annar af tveimur framleiðendum sem láta sitt vín gerjast á eikarámum. Þetta gefur Bollinger kampavíninu skemmtilegan eikarkeim sem magnast í eldri týpunum eins og Bollinger Grand Anné og Bollinger R.D., án þess þó að vera yfirgnæfandi.

Það sama er að segja um aðrar týpur kampavíns því eldri sem þær verða því öflugra og flóknara verður vínið.
Og hér koma yfirburðir hins Franska kampavíns fram, það heldur ávallt fínleika sínum og fágun og framleiðslan helst óbreytt og stöðug ár frá ári. Endingartími kampavíns er líka miklu lengri heldur en annarra freyðandi vína og hér spilar margt inn í  eins og jarðvegur og veðurfar, en ekki síst aldarlöng reynsla, hefðir og “know how”sem gengur í erfðir.

En ástæðan fyrir því að kampavín er dýrara en freyðivín framleitt annars staðar er margþætt. Fyrir það fyrsta þá erum við einfaldlega að borga fyrir gæði en einnig langt og dýrt ferli. Það eru örfáir framleiðendur freyðandi vína sem fara út í sama kostnað við framleiðslu og þá er einna helst að finna í Penedes héraðinu á Spáni en þar er framleitt sterkasta svar heims á kampavíni hið svokallaða Cava.

Kostnaðurinn í framleiðslu kampavíns felst að miklu leyti í tíma, þ.e. frá því þrúgurnar eru tíndar og þangað til þær eru orðnar söluvara, og einnig sú umönnun sem vínið í flöskunni fær.
Hverri einustu flösku er snúið örlítið í einu úr nánast láréttri stöðu og smám saman yfir í nánast lóðrétta, ferli sem tekur fleiri mánuði.  Kerfi þetta er  kallað “Remuage” en þetta færir gruggið nær tappanum sem er að lokum fryst og skotið út, því næst er settur endanlegur tappi í.

Hvaða mat borðar maður svo með kampavíni ? – Hér eru nokkrar hugmyndir.
Kavíar helst rússneskur eða íranskur en þó má alveg notast við silungshrogn með standard týpum af kampavíni. Foie Gras-ostrur,  alltaf klassískt  en einnig er mjög sígilt að borða jarðaber og drekka kampavín.
Þetta er allt eitthvað sem við vitum. En hvað með venjulegan mat – eða svona nánast venjulegan.
Skelfiskur t.d. humar en einnig annarskonar fiskur og þá helst sem ferskastur og eins lítið kryddaður og mögulegt er, fiskur með frekar þéttu kjöti eins og skötuselur og túnfisksteik. Eldri týpurnar þola vel bragðmikinn mat og myndi ég persónulega treysta mér til að mæla með Bollinger R.D. 1990 með villigæs, hef drukkið hana með pipartúnfisksteik sem var algjör snilld.

Hinar ýmsu týpur af kampavíni.
Kampavín er ekki bara kampavín og margir kampavínsframleiðendur framleiða mismunandi týpur. Vintages Champagne er gert úr 3-4 bestu árgöngum á áratugi. Blanc du Blanc kallst það ef kampavínið er einungis úr Chardonnay og Blanc de Noir ef það er einungis úr rauðum þrúgum. Rosé Champagne er annað hvort búið til með því að blanda rauðvíni í blönduna eða að þrúguskinnið fær að vera í safanum í einhvern tíma meðan á gerjun stendur.. Kampavín er spennandi framleiðsla og gefur hverkonar   uppákomum glæsilegan og virðulegan svip. Og það er með kampavín eins og allt annað vín; það er sem betur fer til kampavín fyrir hvert tækifæri og alltaf hægt að velja saman vín og mat.

(Visited 1 times, 1 visits today)

Svara

Netfang verður ekki birt