Heim / Fréttir / Ævintýri barþjónsins – Leó Ólafsson

Ævintýri barþjónsins – Leó Ólafsson

Hvað fær mann til að vilja fara í barþjóninn? Mín upplifun
“Það að gefa er gefandi” að gera hanastél eða elda mat, bera hann fram til kúnnans og sjá ljóman í augum hans og brosið smitast út frá því sem við búum til er ómetanlegt.
Munið að deila hrósunum áfram til kokkanna þeir eru fastir í eldhúsinu og heyra ekki hvað kúnninn upplifir. Það finnst öllum gaman að fá hrós og það heldur fjölskyldunni saman. Ástríðan er allt, það er ómetanlegt að læra það sem maður hefur àstríðu fyrir. Þá koma tækfærin og það er auðvelt að nýta þau ef viljinn er fyrir hendi.
Mér gafst tækfæri á að taka þátt í þeim frábæru keppnum sem barþjónaklúbbur Íslands hefur haldið í samstarfi við marga styrktaraðila. Þetta eru opnar keppnir og áhugamenn geta tekið þátt, jafnvel þeir sem eru óreyndir eins og ég var, geta látið ljós sitt skína.
Þetta er fljótt að lærast, kvíðinn verður minni og titringurinn dvínar með hverju skipti. Að hafa kjarkinn til að grípa tækifærin, mæta, taka þátt og kynnast nýju fólki úr þessum villta geira er yndislegt. Hvert skipti gerir mann betri og betri, maður lærir endalaust bæði af hinum reynsluboltunum og með því að prufa nýja hluti sjàlfur. Ekki gefast upp, hver keppni, hver kokteill gerir þig að betri barþjòn. Mistök gera mann sterkari, reyndari og á endanum verður þú að hinum fullkomna barþjón.
Önnur keppnin sem ég tók þátt í var Birkir og Björk keppni sem var haldinn á Slippbarnum. Þar gekk ég inn í skemmtilegt andrúmsloft. Ég ákvað að mæta alveg einn , var klæddur dökkum gallabuxum og svörtum bol með mynd af apa í jakkafötum og textanum “guns don’t kill people, evil well dressed monkeys do”. Margir mættu og mikið í gangi.
Minn drykkur hét Birki dropi og innihélt:
3 cl birki snaps
3 cl cointreau
3 cl ferskur sítrónu safi
3 cl birki sýróp
Dash eggjahvíta
Þetta er allt hrist saman og borið fram í rocks viský glasi, skreytt með sítrónusneið og birkigrein. Með þessum drykk vann ég fyrstu keppnina mína. Ėg var með hnút í maganum allt þar til ég vann.
10153164_10203722621009015_6318109149490205545_n
Toppurinn var að fá að fara út og keppa í Prag. Sigurinn og verðlaunin komu mér alveg í opna skjöldu, nú átti ég óreyndur maðurinn að fara út og keppa í heimsmeistarakeppni í óáfengum cockteilum í boði Mattoni. Ėg var fáránlega spenntur og í framhaldi jókst metnaðurinn.
Ég er ekki faglærður en er byrjaður að læra í dag og stefni hátt. Barþjónaklúbburinn tók mig að sér og byrjaði að kenna mér. Ėg hafði fjórtán mínútur til að gera fimm eins skreytingar og átta mínútur til að gera fimm alveg eins drykki! Ég bjóst við því að það væri ómögulegt en maður hefur sem betur fer ekki alltaf rétt fyrir sér. Æfingin skapar meistarann.
Það var virkilega gaman að læra af nokkrum þeim færustu í geiranum. Við erum öll rugluð inn við beinið og það er mjög gaman þegar hægt er að sleppt sér í gleðinni.
Undirbúningurinn tók þrjá mánuði og síðan var flogið út, Tómas forseti barþjónaklúbbsins sem ég met mjög mikils kom með mér út. Ég hafði ekki farið til útlanda í átta ár. Hann skammaði mig fyrir að vera með fimm töskur meðan hann sjálfur var með eina þannig að við enduðum á að þurfa að borga töskugjald. Já ég er ofpakkari, maður vill vera fínn. Við keyrum uppá flugstöð og þegar við stigum út úr bílnum áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt vegabréfinu mínu. Mjög fegin að eiga góða að sem brunuðu af stað með passann minn og líka mjög fegin að það var engin lögregla á Keflavíkurveginum þann daginn. Mjög góð byrjun, verðum að hafa smá adrenlín í þessu!
Aldrei fengið mér bjór á flugvelli svo það fyrsta sem við gerum var að fá okkur EINN bjór. Svaf eins og barn í flugvélinni. Í Danmörku vaknaði ég frekar timbraður á flugvellinum. Eftir einn kaldan af Calsbergbarnum var ég orðinn góður, skil samt ekki alveg þessi lítersglös. Nokkrum tímum seinna vorum við á leiðinni til Prag.
Þá vorum við mættir, fallegur dagur en smá skýjað. Náðum í töskurnar okkar og fórum í móttökuna þar sem tvær gullfallegar dömur tóku á móti okkur með Mattoni spjald í hendi. Þaðan sendu þær okkur út þar sem við hittum keppandann frá Danmörku og forsetann úr þeim klúbb. Settumst upp í frekar pimpinn bíl með þeim og keyrum af stað í gegnum þessa fallegu borg. Mig langar að fara þangað aftur og upplifa þessa borg, mæli samt ekki með því að vera á hælum. Öll þessi gömlu hús, kirkjur og kastalar benda til mikillar sögu. Sexmuseum í Prag hefur líka mikla sögu en það er efni í aðra grein.
Við mættum á fimm stjörnu hótelið okkar. Ég reykti á þessum tíma og var það mjög hentugt að mega reykja allstaðar inni. Þetta er frjálsleg borg, margt hægt að gera og mjög lifandi menningarlíf. Ég var ekki byrjaður að fara á bari þegar mátti reykja á börum Íslandi en fékk að kynnast því þarna úti og sem reykingarmanni þá kippti ég mér lítið upp við það.

Á þessum fyrsta degi sá ég hvar verið var að reisa risastórt svið fyrir tónlistarmenn , flair sýningu og krýningu á þrem efstu keppendum. Við skoðuðum hótelið og sáum hvar keppninn átti að vera. Keppendur voru þrjátíu og fimm og það var dregið í hvað röð átti að keppa. Þeir sem voru fyrstir þurftu að vera tilbúnir klukkan níu. Fjórir keppendur kepptu í einu og var verið að lýsa á meðan hvaðan keppendur kæmu, hvað væri í drykknum og lýsing á honum.
Hér fyrir neðan kemur myndband af mér að keppa:

Hér má sjá nokkrar villur en mistök eru til þess að læra af enda búinn að horfa á þetta myndband ansi oft.
Ég komst ekki í úrslit en það munaði einu stigi að ég ætti möguleika á að komast í úrslit og tveim stigum að ég kæmist í úrslit!
Ég varð í áttunda sæti af þrjátíu og fimm og er mjög stoltur af þeim árangri miðað við fyrstu heimsmeistarakeppnina mína, out of this world right!
Eftir keppnina sjálfa var farið út að borða, síðan fórum við á tvo staði sem við skoðuðum. Í minningunni stendur annar upp úr. Hann lítur mjög gamaldags út, þrír barþjónar standa vaktina. Fyrir ofan þá er spegill sem hægt er að fylgst með þeim, öllum hreyfingum og áhöldum sem þeir notast við. Eins gott að vera með fagleg vinnubrögð í lagi þá! Á barborðinu sjálfu var mjög mikið af bitterum, kryddum og öðru sem ég veit ekki enn hvað var. Fallegur cockteillisti var kynntur fyrir okkur og það var líka hægt að panta aðra þekkta cockteila. Það er áhugavert að koma inn á bar sem er allt öðruvísi en þú sérð hér heima. Hvernig hann virkar, engar veitingar nema barsnakk og flottir cockteilar. Það var gaman að fara með þeim sem ég kynntist til að kíkja á þetta.
Nú var sýningin í vændum og búið var að reisa VIP tjald á tveimur hæðum. Tónleikarnir voru byrjaðir, flott flair show og Spánn í 3. sæti, Pólland 2. sæti og í 1. sæti Estonia.
Þetta kvöld verður í minningunni klikkaðra með hverjum deginum. Ætla ekki að fara mikið út í smáatriði en get gefið ykkur hugmyndir:
Forboðin ást, rændur, hjólaferðalag, dansbúr, absenth, eldspúandi barþjónar og vitlaust hótelherbergi. Frekar gott ævintýri!
Næsta morgun vöknum við, skiptumst á nælum frá ýmsum barþjónaklúbbum áður en haldið var heim á leið. Erfitt að kveðja því svo margar minningar höfðu verið búnar til og ég hefði alveg viljað vera viku lengur. Ég eignaðist marga góða vini, tengsl sem munu alltaf vera til staðar.
Ferðin var góð og ég lærði mikið á henni! Ég vil minna á það að á hverjum stað er barþjóninn, þjónninn og kokkurinn sama stóra fjölskyldan. Við erum öll mismunandi, getum lært svo mikið af hvort öðru. Við erum meistarar í því sem við einbeitum okkur að þó við gerum það á okkar hátt. Öll sú gagnrýni sem við fáum er dulið hrós og tækfæri til þess að gera betur.

FullSizeRenderHlakka til að kynnast ykkur öllum

Kv. Leó Ólafsson
Barþjónn, þjónn og einn af þeim úr stjórn barþjónaklúbbsins.
Ást og Friður! “Tilvísun í snilldarkokk;)”
(Visited 1 times, 1 visits today)